Vikulegar þriðjudagshjólaferðir klúbbsins hefjast nk. þriðjudag. Það verður lagt af stað kl. 19.00 frá aðalinngangi Fjölskyldu - og húsdýragarðsins. Við reynum með þessu móti að nota dagsljósið betur - færum okkur fram frá því sem verið hefur - og viljum byrja ferðirnar frá einum af fallegustu stöðum borgarinnar. Ferðanefndin vonar að trúir og dyggir þriðjudagshjólarar séu sáttir við þessar breytingar og ekki síður óskum við þess að fleiri sjái sér fært að koma með út að hjóla. Fyrsta ferðin verður á léttum nótum; við komum saman, skráum í þriðjudagshjólabikarbókina hverjir eru mættir og rúllum svo vestur í bæ um Fossvoginn og fáum okkur kaffi og vöfflur í klúbbhúsinu:-)

Allir félagar ÍFHK og þeirra gestir eru hjartanlega velkomnir í þriðjudagsferðirnar. Börn viljum við sjá í góðum félagsskap foreldra eða forráðamanna sinna og reynslan segir okkur að þetta eru einkar notalegar hjólaferðir um borg og bý. Í þessum ferðum fer einnig fram eina keppni félagsins; keppt er um mætingabikarinn. Sá sem á flestar mætingar í ferðir sumarsins fær veglegan bikar í lokatúrnum í ágúst. Á síðasta ári var það Edda Guðmundsdóttir sem hneppti bikarinn. Hún kom í allar ferðirnar nema eina. Hún er nú í ferðanefnd klúbbsins. Edda kynntist klúbbnum fyrst á kynningu í Perlunni á Degi Umhverfisins 24. apríl í fyrra.