Gísli MarteinnMikið hjólreiðaátak hefur staðið yfir í Reykjavík allt þetta kjörtímabil. Í Grænu skrefunum segir undir yfirskriftinni Göngum lengra, hjólum meira: „Göngu- og hjólreiðastígurinn frá Ægisíðu upp í Elliðaárdal verður breikkaður, upphitaður og vatnshönum þar fjölgað. Göngu- og hjólreiðastígum verður sinnt eins og götum borgarinnar allan ársins hring ... Merkingar göngu- og hjólreiðastíga munu taka mið af göngu og hjólreiðum sem samgöngumáta."

Stórt skref í þessari baráttu hefur nú verið stigið með því að merkja Suðurgötuna með svokölluðum hjólavísum (sjá myndir hér). Þeir virka þannig að sérstakar merkingar eru málaðar í götuna og gefa bæði hjólreiðamönnum og ökumönnum bifreiða skýr skilaboð um að hjólreiðamenn eigi þarna rétt og það beri að taka tillit til þeirra. Þegar við vorum að undirbúa þessa aðgerð á umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar þurftum við að velja á milli þess að mála sérstakan renning í götuna eða setja þessa vísa niður. Í samráði við Landsamtök hjólreiðamanna (fleiri myndir hér) ákváðum við að setja hjólavísana niður í Suðurgötuna, til að kynna þá fyrir borgarbúum. Annarsstaðar geta aðrar lausnir átt við.

Það sem er mikilvægt við þessa bættu aðstöðu hjólreiðafólks á Suðurgötunni, er að þetta er í rauninni framlenging á Ægisíðustígnum sem fjölmargir nýta sér. Fyrir háskólanema sem býr í Breiðholti er leiðin orðin mjög greið á hjólreiðastígum niður Elliðaárdalinn, gegnum Fossvoginn, meðfram Öskjuhlíðinni og flugvellinum og að lokum upp Einarsnesið inn á Suðurgötuna. Og eins og einnig er kveðið á um í Grænu skrefunum erum við að yfirfara allan Ægisíðugöngustíginn upp í Elliðaárdal til að reyna að aðskilja gangandi og hjólandi umferð til að tryggja öryggi beggja hópa.

Allt er þetta á fullri ferð og ástæða til að hvetja borgarbúa til að huga að heilsunni og buddunni og hjóla í allan vetur í vinnu og skóla. Aðstæður hafa aldrei verið betri. Til hamingju Reykvíkingar!

Gísli Marteinn bloggar á gislimarteinn.is