Þetta er yfirskrift athyglisverðrar greinar eftir einn stjórnarmann Náttúruverndarsamtaka Íslands sem birtist í Degi 15 janúar. Samtökin hafa verið öflug í því að veita stjórnvöldum heilbrigt aðhald með vönduðum og vel rökstuddum málflutningi. Allir umhverfissinnar ættu að styðja starfið með því að gerast meðlimir og einnig er hægt að fá stöðugt nýjustu fréttir af umhverfismálunum á tölvupóstinum frá þeim.  PG

Rökleysa forsætisráðherra um gróðurhúsaáhrif

Það er einkennandi fyrir málflutning forsætisráðherra í umræðunni um gróðurhúsaáhrif að hann reynir að gera lítið úr vísindalegum niðurstöðum þess efnis að gróðurhúsaáhrif séu vandamál, sem taka beri á hið fyrsta. Þetta kom fyrst fram í ræðu sem hann hélt á fundi Norsku Atlantshafsnefndarinnar í Osló þann 12. nóvember s.l. Þar benti hann á að ef "spádómur sumra reyndist á rökum reistur, þá væri hætta á ferðum ..." Bætti síðan við að fyrri heimsendakenningar um offjölgun mannkyns, auðlindakreppu og endimörk vaxtar hefðu ekki reynst réttar.

Spyrja má, hverjir þessir "sumir" eru, sem forsætisráðherra vísar til? Er það vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (International Panel on Climate Change), sem í eiga sæti rúmlega 2000 vísindamenn og sérfræðingar, sem starfa á vegum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) og Umhverfisnefndar S.Þ. (UNEP) og eru formlega tilnefndir ríkisstjórnum aðildarríkjanna?

Það er niðurstaða Vísindanefndarinnar að draga þurfi úr losun gróðurhúsalofttegunda um meira en 50% frá því sem nú er á fyrri hluta næstu aldar ef koma á í veg fyrir hættulegar breytingar á loftslagskerfunum.

M.ö.o. ef sá samningur sem gerður var í Kyoto heldur það vel að samdráttur í losun gróðurhúsalofttegundua af hálfu iðnríkja verði 5,2 af hundraði á samningstímabilinu 1990-2010 - eins og samkomulagið hljóðar upp á - þá eru eftir u.þ.b. 90 af hundraði þess magns sem iðnríki heims verða að hætta að losa út í andrúmsloftið fyrir miðja næstu öld.

Á þessu virðist forsætisráðherra ekki átta sig. Í áramótaræðu sinni dregur hann upp eftirfarandi samlíkingu: "Enn er ekki uppi sá maður, sem getur sagt fyrir um, hvernig veður muni skipast í lofti eftir mánuð eða svo. Glöggur veðurfræðingur veit rétt eins og við öll hin, að sennilega verður ekki sólbaðsveður síðasta dag í janúar. En hann getur ekki sagt til um, með neinu öryggi, hvort veður muni gefa til flugs eða fiskveiða eða hvort þá megi brúka skíði eða skauta. Það mundi engin leyfa sér að gefa út svo fyrirvaralausa spá svo langt fram í tímann, vegna þess að sá hinn sami þyrfti að standa frammi fyrir veruleikanum, innan skamms. Þeir, sem til að mynda, þykjast sjá fyrir að Golfstraumurinn góði muni kveðja Ísland og koma sér annað á seinni hluta næstu aldar, ellegar að flata Holland verði þá ekki þar sem það er nú, geta treyst því að þurfa ekki að verja spár sínar. Menn verða að fara afar sparlega með stórslysaspárnar og forðast að skapa ótta hjá fólki með vísan til fræða sem byggja á veikum grunni."  

Rökleysa

Það er rökleysa að bera saman útreikninga veður- og loftslagsfræðinga á því hvað gæti gerst, verði ekki dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda, við spár veðurfræðinga um hvort viðra muni til flugs, fiskveiða, skauta- eða skíðaiðkunar eftir einn mánuð. Þetta er sitthvað og ekki samanburðarhæft þar eð aðferðafræðin sem liggur að baki slíkum spám er ekki sú sama. Veðurspá, annars vegar, byggir á að veðurfræðingar þekki til hreyfingar hæða og lægða á sérhverri stundu. Hins vegar, miða útreikningar loftslagsfræðinga að því að segja til um hvaða áhrif aukið magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu hefur á meðalhita til langs tíma. Það geta ekki talist rök gegn ályktunum vísindamanna, sem fá niðurstöður sínar birtar í virtustu vísindatímaritum heims, að þeir verði komnir undir græna torfu þegar spár þeirra eiga að rætast

Staðreyndin er sú að vísindamenn eru sammála um að uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu valdi þegar merkjanlegaum gróðurhúsaáhrifum. Um það er ekki deilt. Vísindamenn greinir hins vegar á um hversu hröð þróunin verði og hversu alvarlegar breytingar verði á loftslagi og/eða hafstraumum.

Varúðarreglan - ein helsta samþykkt Ríó-ráðstefnunnar

Kjarni málsins er sá að við getum ekki leikið rússneska rúllettu með lífríki jarðar. Davíð Oddsson gerði sér mæta vel grein fyrir þessu þegar uppbygging þorskstofnsins var annars vegar. Sömuleiðis þegar hann áréttaði brýna nauðsyn þess að ná fram alþjóðlegu, lagalega bindandi samkomulagi um takmörkun og bann við losun þrávirkra lífrænna efna út í umhverfið í ræðu sinni á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi 1994. Nú þegar Davíð Oddsson er á hátindi ferils síns, rit er gefið út honum til heiðurs og forusta hans í flokki og ríkisstjórn er óskoruð, ætti honum að vera í lófa lagið að skoða þessi mál ofan í kjölinn. Afla sér ráða og upplýsinga frá breiðum hópi sérfræðinga og vísindamanna og grípa inn í umræðuna með almannaheill í huga.

Því miður hefur forsætisráðherra ekki náð að gegna þessu forustuhlutverki, heldur gefið út yfirlýsingar þess efnis að Íslendingar muni ekki staðfesta þá bókun sem gerð var við Rammasamning S.Þ. í Kyoto, fái þeir ekki leyfi til að auka losun gróðurhúsalofttegunda um 40-60 prósent á tímabilinu 1990-2010.

Þjóðarsátt?

Þetta er óheyrilegur boðskapur af hálfu forsætisráðherra landsins. Hagsmunir Íslands felast öðru fremur í því að stjórnvöld marki landinu forustuhlutverk við að efla og styrkja alþjóðlega samninga um umhverfisvernd og láti sér annt um náttúrugæði Íslands, líkt og gert hefur verið í baráttunni gegn mengun sjávar og að nokkru leyti varðandi fiskveiðistjórnun. Varla er það á færi forsætisráðherra Íslands að véfengja aðvaranir heimskunnra vísindamanna um afleiðingar gróðurhúsaáhrifa. En ætlist hann til þess að boð eða yfirlýsing hans, um viðtæka sátt meðal þjóðarinnar og við landið sé tekin alvarlega verður hann að taka virkjana- og stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar strax til rækilegrar endurskoðunar -- og þá mun fyrst verulega reyna á krafta og kænsku Davíðs Oddssonar.

Arni Finnsson
Grandavegi 7
107 Reykjavik
Iceland

Sími: 561 3679 - 897 2437

e-mail: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.  

Greinin birtist í Degi 15 janúar 1998.