Framtaki Reykjavíkurborgar í gerð göngustíga og bættu aðgengi verður veitt viðurkenning í dag. Með því vilja fimm félagasamtök lýsa yfir ánægju sinni með ákvarðanir borgaryfirvalda í því að gera göngustíga í Reykjavík aðgengilega fyrir alla.

Við borgarbúar höfum drifið okkur í vaxandi mæli í gönguferðir og bjóðum hvert öðru glaðlega góðan dag á göngu okkar um nýja göngustíga þvers og kruss um borgina. Göngubrýr yfir stærstu umferðaræðar borgarinnar opna nýjar leiðir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og malbikið eða olíumölin á gangstígum borgarinnar auðvelda för. Víða hafa verið gerðar niðurtektir við gangstéttarbrúnir svo að allir komast auðveldlega leiðar sinnar, jafnt blindir, fólk í hjólastólum, hjólreiðamenn, fólk með barnavagna, sem og fullfrískir hlaupagarpar.

Upphafið að þessu verðuga framtaki borgarinnar er athyglisvert. Þannig var að árið 1994 sótti Sjálfsbjörg, félag fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu, um styrk til Atvinnumálanefndar Reykjavíkurborgar til að láta gera úttekt á aðgengismálum fatlaðra í borginni. Styrkur til að gera úttektina var veittur og voru ráðnir þrír starfsmenn, þar af einn verkfræðingur til að vinna verkið. Úttektin leiddi í ljós að yfir 2000 staðir í gangstígakerfinu voru óaðgengilegir hverskonar hjólum. Niðurstaðan var kynnt gatnamálastjóra, en hann sýndi málinu strax mikinn áhuga. Upplýsingarnar sem aflað var eru nú til í tölvutæku formi hjá embættinu og verður unnið áfram að úrbótum á aðgengi á næstu árum. Borgaryfirvöld skipuðu ferlinefnd í ársbyrjun 1995, en hún gegnir þýðingarmiklu hlutverki í ákvarðanatöku og allri framvindu í aðgengismálum.

Árið 1996 voru veittar 15 milljónir króna til að gera úrbætur á gangstígakerfinu. Falleg gönguleið er t.d. komin frá Skerjafirði lengst inn í Elliðaárdal og ekki má gleyma að nefna göngustíg við Sæbrautina þar sem útsýnið gleður hjartað. Gott mál er einnig að sérstök áhersla hefur verið lögð á að gera úrbætur á gönguleiðum nálægt búsetu hreyfihamlaðra.

Ferlinefndin hefur beitt sér fyrir því að gera úttekt á aðgengi að borgarstofnunum með góðum árangri. Veittar voru 30 milljónir króna árið 1997 til að vinna áfram að úrbótum á gangstígum og jafnframt að lagfæringum á aðgengi að borgarstofnunum eftir ábendingum frá ferlinefndinni. Með fjárveitingum og ákvörðunum um aðgerðir í aðgengismálum hafa borgaryfirvöld sýnt vilja sinn í verki. Að sjálfsögðu njóta allir vegfarendur góðs af því sem áunnist hefur í gerð og lagfæringu göngustíga í borginni. Fimm hópar vilja sérstaklega þakka borgaryfirvöldum fyrir þetta verðuga framtak en það eru Blindrafélagið, Íslenski fjallahjólaklúbburinn, Íþróttafélag fatlaðra, Íþróttir fyrir alla og Sjálfsbjörg, félag fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu. Þessir aðilar munu veita Reykjavíkurborg viðurkenningar fyrir bætt aðgengi fyrir alla í borginni. Athöfnin fram við formlega opnun brúarinnar í dag, föstudaginn 29. ágúst kl. 16.30, við suðurenda nýju göngubrúarinnar yfir Miklubraut. Götuleikhúsið verður þar með uppákomu. Við hvetjum borgarbúa til að mæta og sýna borgaryfirvöldum með því velþóknun með framkvæmdir sem stefna í rétta átt - AÐGENGI FYRIR ALLA hvort sem þeir eru gangandi eða á hjólum!

Hópar frá Blindrafélaginu, Íþróttafélagi fatlaðra og Sjálfsbjörg safnast saman við Glæsibæ og leggja af stað kl. 15.30 austur Suðurlandsbraut að enda brúarinnar Rauðagerðismegin.

© Sigurrós Sigurjónsdóttir, formaður Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu og Ásta M. Eggertsdóttir, Sjálfsbjargarfélagi.

 

Sigurrós Sigurjónsdóttir afhendir borgarstjóra…

Sigurrós Sigurjónsdóttir afhendir borgarstjóra…

…viðurkenningarskjalið

…viðurkenningarskjalið

Borgarstjóri fær aðra viðurkenningu frá Íþróttum fyrir alla.

Borgarstjóri fær aðra viðurkenningu frá Íþróttum fyrir alla.

 

 

Hópurinn

 

Hópurinnf

 

Hópurinn
 

 

gangan
 
 
Viðurkenning afhent
 
 
Klippt á borðann
 
 
 
Göngubrúin
 
 
Göngubrúin


Myndir © Ómar Bragason, nema 3 efstu sem eru teknar úr fréttatíma RÚV.