Það hefur kólnað jafnt og þétt í Klúbbhúsinu í gegn um árin, en við höfum bætt það upp með gasofnum og hitablásurum.  Í október var skellt í lás þegar ástandið í covid málum fór versnandi hérlendis.  Var engin starfsemi í 4 mánuði.  En þegar við ætluðum að opna aftur í janúar, þá búmms, gaf sig heitavatnslögn eða ofn eða eitthvað og sjóðandi heitt vatn flæddi um gólf og gufa þéttist í loftinu sem lak síðan niður með veggjunum, ofan á húsgögn, pappír, tímarit og bæklinga sem voru á efri hæðinni.

Það var svo sem löngu orðið tímabært að hringja á pípara og það var gert, enda skapaðist neyðarástand þegar lögnin gaf sig.  Það hafði verið grimmdarfrost í nokkra daga og því vill frjósa í leiðslum ef það er enginn hiti á ofnunum.  Það var skipt um ofna og þeim fjölgað.  Nú er kominn baðstofuhiti á loftið og allt annað ástand í Klúbbhúsinu.

En það var ekki nóg að skipta út ofnum, við þurftum líka að skipta út blöndunartækjum og klósetti.  Og fjarlægja dúkinn af gólfinu uppi, því spónaplöturnar voru rennblautar.  Sem betur fer vatnsvarðar og því þurfti ekki að skipta um þær.  En úr því við vorum byrjuð á viðhaldinu, þá ákváðum við að halda áfram, styrkja gólfið og laga hillur sem höfðu losnað.  Okkur fór meira að segja að dreyma um kamínu á efri hæðina... en ætli það verði ekki að bíða betri tíma.

Í stjórn og Húsnefnd eru níu manns og mættum við flest til að kanna ástandið, bera kassa með prentefni að ofnunum, svo þeir myndu þorna fyrr, fjarlægja dúkinn af gólfinu, sem reyndist smá maus, því ofan á honum hvíldi heil eldhúsinnrétting.  Það gekk upp og var hann breiddur út í ca meters hæð ofan á stóla til að þorna.  Við tókum allt út úr eldhúsinnréttingunni, svo það mætti þrífa hana almennilega, allt tauefni var sett í þvott og þurrk.

Við ætlum að bíða aðeins með að leggja dúkinn á gólfið, leyfa því að þorna almennilega.  Aðalfundur er á dagskrá 25 febrúar og við munum flykkjast aftur í Klúbbhúsið fyrir þann tíma, raða inn í eldhúsinnréttinguna, raða upp stólum og borðum, koppum og kirnum og gera húsið huggulegt og klárt.  Eftir aðalfund verður opið hús með hefðbundnum hætti tvisvar í mánuði og engin spurning, að það er hlýtt og mun betra Klúbbhús sem tekur á móti ykkur.

Myndir: Hrönn Harðardóttir og Geir Harðarson.
Skjáskot úr Vesturbæjargrúppunni um það leiti sem slökkviliðið mætti að þessari gömlu slökkvistöð.