Föstudaginn 20. september 2019 verður níunda ráðstefna Hjólafærni og Landssamtaka hjólreiðamanna undir heitinu Hjólum til framtíðar haldin og er frítt inn fyrir félaga Fjallahjólaklúbbsins.

Meginþema ráðstefnunnar í ár er Göngum‘etta. Þó það sé frábært að hjóla er ekkert sem jafnast á við að ganga til samgangna – en það hefur eiginlega alveg orðið út undan í hugsuninni um fjölbreyttar ferðavenjur.

Skráið ykkur hér: Skráning á Hjólum til framtíðar 2019. Formlegri skráningu líkur miðvikudaginn 18. september kl. 18.

Annar aðalfyrirlesari ráðstefnunnar verður Jim Walker frá Walk21 sem gekk um Ísland fyrir 35 árum og varð fyrir djúpum hughrifum og stofnaði í framhaldinu alþjóðlegu göngusamtökin Walk21. Samtökin Walk21 leggja áherslu á gott flæði fyrir gangandi vegfarendur í borgum heimsins. Jim Walker hefur lýst yfir sérlegu þakklæti með að fá tækifæri til að heimsækja Ísland og tala á ráðstefnunni – fyrir honum er það kærkomin leið til að þakka þá upplifun sem leiddi til stofnunar Walk21.

Hinn aðalfyrirlesari ráðstefnunnar verður Hans Voerknecht sem hefur um árabil leitt þróun lausna fyrir hjólandi vegfarendur í Hollandi með ráðgjöf og stefnumótun undir hatti Hollenska hjólasendiráðsins. Auk þess er hann vel að sér í raunverulegum kostnaði samfélagsins á því sem í daglegu tali kallast „frí bílastæði“ og talar fyrir eflingu hjóla og almenningssamgangna og nauðsyn þess að draga úr dekri við einkabílinn.

Fjölmörg innlend erindi eru einnig á dagskránni; Gengið til samgangna – stefnumótun – hjólandi verkfræðingur – hollenska hjólasendiráðið – hraði á stígum – lof og lausnir í hjólheimum – lán á rafmagnshjólum – örflæði – litið um öxl – hvað segir forsætisráðherra og Elsku pabbi ekki kaupa bíl!

Nánari upplýsingar á vef Landssamtaka hjólreiðamanna: Hjólum til framtíðar 2019 - og göngum'etta og á Facebook viðburðinum. Streymt verður sent beint frá ráðstefnunni.

Að auki verður hjólað kvöldið fyrir ráðstefnuna og skoðað hvernig aðstæður eru þar til að vera hjólandi í samgöngum. Sjá Facebook viðburð: Hjólaferð um Garðabæ - upphitun fyrir ráðstefnu morgundagsins!

"Í samgönguvikunni í ár verður ráðstefnan Hjólum til framtíðar í Garðabæ. Því förum við daginn fyrir ráðstefnuna og hjólum um Garðabæinn og skoðum hvernig aðstæður eru þar til að vera hjólandi í samgöngum. Einnig skoðum við fjallahjólabrautina við Lundaból, leynd perla þar sem ungviði bæjarins leikur sér óspart á hjólunum sínum. Við hjólum að lokum að IKEA og fáum okkur snarl þar í ferðalok."