Frá árinu 2003 hefur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands staðið myndarlega að því að efla hreyfingu og starfsanda á vinnustöðum með heilsu- og hvatningarverkefninu „Hjólað í vinnuna“. Bæði er þetta skemmtilegur leikur og kjörið tækifæri til að hvetja vinnufélagana til að prófa að hjóla í vinnuna.

Megin markmið verkefnisins er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Þátttakendur eru hvattir til þess að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu dagana 6. – 26. maí 2015. 

Starfsmenn vinnustaða hér á landi hafa tekið vel við sér því þátttakan hefur margfaldast síðan að verkefnið fór af stað. 

Alls voru 567 vinnustaðir sem skráðu 1248 lið til leiks árið 2014 með 9145 liðsmenn og 487 lið skráðu sig til leiks í kílómetrakeppnina.

Alls voru hjólaðir 734.946 km eða 548,88 hringir í kringum landið. Við það sparaðistum um 118 tonn af útblæstri CO2, og rúmlega 70 þúsund  lítrar af eldsneyti sem gera sparnað upp á 17 milljónir króna. Brenndar voru um 46 miljónir kaloría sé þessi vegalengd gengin en 24 milljónir kaloría sé þessi vegalengd hjóluð, sé miðað við 80 kg mann sem ekur á fólksbíl.

Ferðamáti var í 89,1% á hjóli,7% gangandi, 2,5% strætó/gengið og 0,7% hlaup.

Hjólað í vinnuna fer fram dagana 6. – 26. maí 2015.

Skráum okkur til leiks: hjoladivinnuna.is