Sameiginleg saga mín og reiðhjólsins er ekki ýkja löng. Ég er nýlega skriðin í sextugt og er stolt af því. Fyrsti hjólatúrinn var á  reiðhjóli bróður míns þegar ég var 7 ára. Ég stalst til þess og það var í fyrsta og jafnframt síðasta sinn, því á alltof stóru DBS strákahjóli  var ég tilneydd að hjóla “undir slá”. Hver veit nú hvað það er í dag .. !

Fyrir sléttum fjórum árum, 18. janúar 2010, ákvað ég að hressa mig við; heldur meira en ég hafði gert undanfarna vetur, með góðri líkamsrækt nokkrum sinnum í viku. Ég ákvað einnig að hina dagana skyldi ég ganga til vinnu sem var um 40 mín. hvora leið.

Þennan janúarmorgun var héla yfir öllu og ég arkaði af stað í góðum gönguskóm. Það síðasta sem dóttirin bauð mér var að skutla mér til vinnu.

Hún fékk afgerandi neitun því ásetningurinn var ekki af verri endanum. Í form skyldi ég vera komin með vorinu og ganga á Hvannadalshnjúk. Eða það hélt ég....!

Rétt fyrir klukkan átta varð ég vör við að mildur regnúði settist á gleraugun. Örfáum skrefum síðar flaug ég á hausinn í orðsins fyllstu merkingu; það sem ég hélt vera regnblauta gagnbraut reyndist vera gljáandi frosthula yfir svörtu malbikinu.

Þar sem ég lá bjargarlaus komu tveir vegfarendur aðvífandi og saman drógu þau mig á fætur og „hengdu“ mig á  steinvegg sem umkringdi nærliggjandi garð. Þarna hékk ég og beit á jaxlinn. Ég var staðráðin í að jafna mig og halda áfram til vinnu, en það amaði eitthvað að, eitthvað mikið. Ég hringdi á dótturina sem hafði hálftíma fyrr boðist til að skutla mér. Heim fór ég og síðan upp á slysadeild.

Eftir myndatöku var ég send heim með verkjalyf og jú „farðu svo bara í leikfimi”.

Það grátbroslega var að ég hafði menntað mig sem geislafræðingur og unnið í kjölfarið í samfellt 35 ár í 100% vinnu og var e.t.v. of ákveðin þegar ég bað um að fá að sjá röntgenmyndirnar af mér. Ég hlýt að hafa verið óþolandi ágeng.

Niðurstaðan var neikvæð, ekkert sást, „allt eðlilegt”, allt nema líðanin. Heim fór ég og lá að mestu í sex vikur. Ég hafði ekki legið svona lengi í rúminu síðan ég lá í lömunarveiki sem barn.

Þar sem allar niðurstöður voru á þennan veg fór ég að ókyrrast og vildi í vinnuna. Þar var hugurinn og samviskusemin að verki en skrokkurinn var ekki jafn hress. Vinnan var þannig að mestallan daginn var ég að lyfta veiku fólki eða þramma um langa ganga spítalans.

Það er skemmst frá því að segja að ég var úrvinda eftir hálfan vinnudag og heim skreið ég í rúm og svaf það sem eftir lifði dagsins. Þrjá daga í viku fór ég í þjálfun sem olli mér kvíðakasti í hvert sinn. Ég veit ekki hvort okkar þjáðist meira, ég eða sjúkraþjálfarinn en að lokum gáfumst við bæði upp; árangur: enginn.

Það læddist í mig vefjagigt og komin í þrot leitaði ég til gigtarlæknis. Hann greindi mig síðan klíniskt brotna eftir að við heyrðum bæði brestinn sem kom við átakið og sagði að ég færi  ekki svona á mig komin í vinnu. Þarna voru liðnir þrír mánuðir upp á dag.

Ég hlífi ykkur við öllum mínum læknisheimsóknum á þessum tíma, tilraunum með lyf og meðferðum.

Um haustið var ég komin í rúmið, lögst í þunglyndi og kílóin komu óboðin, öll tíu, ófær um að vinna og framtíðin eitt stórt spuringarmerki.

Beiðni hafði farið á Reykjalund um vorið og í byrjun desember fékk ég langþráð símtal þaðan. Þar byrjaði ég í sama mánuði og lauk sex vikna meðferð á sál og líkama um miðjan febrúar 2011.

Eftir gríðarlega tiltekt í öllum skúffum og skápum sálar og líkama var ég öll önnur.

Ég var þar samtíða konu sem var mun yngri en ég. Hún var að jafna sig eftir erfið veikindi og átti í miklum vandræðum með jafnvægið og fóturinn sveik hana nánast í hverju spori. Ég var vitni að því þegar hún ásamt sjúkraþjálfara reyndi að hjóla utanhúss. Það gekk á ýmsu,  jafnharðan og hún féll af hjólinu settist hún á það aftur og hélt áfram. Þetta gekk svona fyrir sig að mér fannst í eilífðartíma, dag eftir dag. Ég fór fínt í að spyrja hana hvort hún væri vön að hjóla; hún sagði svo vera og að hún ÆTLAÐI í hjólaltúr með vorinu- til Spánar. Þó hún hefði sagst ætla til tunglsins hefði ég ekki orðið meira undrandi.

Þegar ég kom heim fann ég að göngutúrarnir voru liðin tíð, það reyndist mér erfiðast og að ganga lengur en 10-15 mínútur var ekki í boði. Það var þá sem ég fór að gefa reiðhjóli dótturinnar auga en fram að því hafði ekki hvarflað að mér að nota það. Börn og sérvitringar voru þeir sem hjóluðu en það hlaut að vera í lagi að prófa og það gerði ég og sé ekki eftir því.

Nú gerðust hlutirnir hratt. Ég hjólaði áleiðist út í Gróttu og síðar var það Gróttuhringurinn flesta daga og fljótlega lengri leiðir innan borgar; Elliðaárdalurinn, Norðlingaholtið og fleiri lengri túrar, allt úr Vesturbænum. Fyrir mér var þetta ný upplifun, ný áskorun, nýtt líf og betra úthald.

Vinkona mín á Akureyri, hlaupagikkur, þríþrautarmeistari og hjólafíkill hringdi í mig í byrjun maí og skoraði á mig að koma með í hjólatúr til Ítalíu! Mér varð orða vant en þegar Ítalía er annars vegar er ekki hægt að segja nei. En að þvera Pódalinn var  allt önnur Ella. Það eru engar ýkjur að segja að ég var skelfingu lostin. Í  þessu ástandi með skrokkinn hljómaði þetta eins og hnattferð. Ég hringdi í fararstjórann og spurði hana um alla mögulega og ómögulega hluti varðandi væntanlega ferð. Hún sagði að ég yrði nú ekki „skilin eftir“ eða „látin eiga mig“,þau „kæmu mér á áfangastað“ o.s.frv. Ég hugsaði málið og hringdi síðar aftur í fararstjórann. Hún á heiður skilið fyrir þolinmæðina. Hún ákvað enn að stappa í mig stálinu og sagðist ætla að segja mér sögu úr síðustu ferð hjólagarpa sem hún fór með til Spánar og í miðju kafi kom þetta: „hún var nýkomin af Reykjalundi, jafnvægislaus eftir heilablæðingu og auðvitað var túrinn erfiður en hún kláraði hann.....“. Og þá rann upp fyrir mér að þetta var sama konan og ég horfði á úr tækjasalnum á Reykjalundi um veturinn. Ef hún gat þetta þá hefði ég enga afsökun, alls enga.....!

Viku síðar flugum við til Bologna og komum undir morgun á áfangastað í bænum Mestre þar sem við byrjuðum túrinn   og það var ósofinn hópur 23ja sem hjólaði út úr borginni áleiðis til Feneyja og yfir á Lido. Þaðan lá leiðin til Chioggia, Rovigo, Ferrara, Ravenna, Faenza og Brisighella en þaðan tókum við lest til Flórens og teygðum þar úr bólgnum og þreyttum tám 300 km síðar.

Það var bitin og fótfúin kona sem kom heim til Íslands viku síðar en afskaplega stolt af þessum áfanga.

Nú er hjólið minn samgöngumáti, bíllinn er mest inni í skúr og þegar hálkan er allsráðandi dettur mér (enn) ekki í hug að hjóla í ljósi biturrar reynslu en einkabílstjórinn sem sækir mig á 100 milljón króna Benz (gulur og stór) sér um að koma mér milli staða á þessum árstíma.

Svo er það hjólið þegar sumrar á ný.

Hver veit nema ég fjárfesti í „almennilegu“ hjóli og fari aðrar leiðir innanlands því nýjar áskoranir ber upp á hvern dag.

Með góðum kveðjum, Filippía.

Birtist fyrst í Hjólhestinum 1 tlb. 23. árg. 2014