Atlantshafsleiðin um Suðurland

Um alla Evrópu er unnið að gerð hjóla­leiða­netsins EuroVelo. Viljir þú hjóla í gegnum Loire dalinn í Frakklandi eða fara eftir ströndum Eystrasaltslandanna, ættirðu að fletta upp á EuroVelo. Það er hjólaleiða­net sem er í mótun um alla Evrópu, unnið undir hatti Evrópusamtaka hjólreiðamanna, ECF - European Cyclist Federation. Hjólaleiðir EuroVelo liggja frá suðri til norðurs, austri til vesturs, um strendur og sveitir, fjöll og dali og tengja borgir og bæi. Með EuroVelo er unnið að því að skapa heilsteypt leiðanet hjólaleiða um alla álfuna; með viðmiðum og skilyrðum sem unnið er eftir og eiga um leið að tryggja ákveðin gæði á hjólaleiðunum sem hjólandi ferðamenn geta notið. Á meðal viðmiða er gert ráð fyrir ákveðnu aðgengi að þjónustu, takmörkunum á halla vega og umferðarmagni. Aðgreindir stígar þykja bestir en víða liggja leiðirnar um vegi þar sem umferð er undir viðmiðunarmörkum.

Í maí árið 2013 voru 45.000 km af hjóla­leiðum komnar á kortið en stefnt er að því að kílómetrarnir verði orðnir 70.000 árið 2020, þegar verkefninu á að vera lokið. Á heima­síðu EuroVelo, www.eurovelo.com, er ágætt yfirlitskort og upplýsingar um einstakar leiðir í löndunum sem þær liggja um.

 

EuroVelo 1 á Íslandi - Atlantshafsleiðin

Það er nokkuð um liðið síðan stjórnar­menn úr röðum Landssamtaka hjól­reiða­manna fengu áhuga á því að vinna að merkingu hjólaleiða um Ísland og að stefna að því að tengja Ísland EuroVelo hjólaleiðanetinu. Einnig leitaði EuroVelo til LHM, til að kanna möguleika á að framlengja leiðanetið til Íslands Eftir nokkra fundi, jamm og já og yfirlegu, var ákveðið að blása til ráðstefnu um tækifæri í hjólaferðamennsku. Hún var haldin í húsnæði verkfræðistofunnar Eflu í febrúar árið 2012. Þar var margt skemmtilegt rætt og kynnt enda margir sem lögðu hönd á plóginn. Öll innlegg og upptökur af erindum ráðstefnunnar eru aðgengileg á heimasíðu Landssamtaka hjólreiðamanna, www.lhm.is
Upp úr þessari ráðstefnu urðu til nokkrar merkilegar afurðir. Ein þeirra var að sett var saman IPA umsókn til ESB; Cycling Iceland – Eco Innovation in Tourism. Þar var í raun unnin ákveðin þarfagreining á því sem þyrfti að gera til að vinna landsnet hjólaleiða um Ísland. Í ljósi þess hvernig IPA styrkjunum reiddi af á Íslandi þegar hætt var við aðildar­viðræðurnar við Evrópusambandið, voru aðstandendur nokkuð þakklátir fyrir að hafa ekki fengið umræddan styrk. En vinnan var komin á blað. Hún hefur nýst áfram við innleiðingu EuroVelo leiðarinnar um Ísland.
Námsmennirnir Eva Dís Þórðardóttir og Gísli Rafn Guðmundsson fengu síðan styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til þess að vinna skýrsluna Hjólaleiðir á Íslandi. Þau voru dugleg að kynna skýrsluna á opinberum vettvangi og á meðal ráðamanna og uppskáru að launum Forsetaverðlaunin fyrir verkið.
Fyrir áramótin 2013/2014 var auglýst á vegum ECF eftir áhugasömum til að vera með í næsta áfanga EuroVelo verkefnisins. Nú þurfti að hafa snör handtök því stuttur tíma var til stefnu og þrjú ár í næsta tækifæri. Ferðamálastofa, Vegagerðin, Landssamtök hjól­reiðamanna og Hjólafærni á Íslandi fylktu sér á bak við umsókn um þátttöku og samkvæmt ferlinu sem tók nokkra mánuði, var landið samþykkt inn í verkefnið.

 

Næstu skref

Nú hefur verið unnið markvisst að fram­lengingu Atlantshafsleiðarinnar, EuroVelo 1, til Íslands. Hún er lögð með þeim hætti að upphafs og endapunktar eru Keflavík og Seyðisfjörður. Í stórum dráttum fer leiðin um suðurströnd landsins. Vegagerðin hefur hannað skilti sem auðkenna og vísa leiðina. Í raun er aðeins lítill bútur af þjóðvegi númer 1 sem ekki stenst umferða- og rýmisviðmið EuroVelo. Það á við um vegbútinn frá Hellu á Hvolsvöll. Þar er mjór þjóðvegur og mikil umferð. Það væri óskandi að þar kæmi góður hjólastígur sem allra fyrst og viðbúið að hann myndi líka nýtast heimamönnum vel enda ekki nema 14 km á milli þessara tveggja þéttbýlisstaða.

Haustið 2014 hlaut íslenski hlutinn af EuroVelo Route 1 formlega stöðu sem „Candidate Route Extension“. Í apríl 2015 er stefnt að kynningu á EuroVelo og hjólaleiðinni á svæðunum sem hún liggur um. Leiðin verður einnig kynnt á hjólakortinu Cycling Iceland 2015. Í júni er von á úttektarmanni frá EuroVelo til Íslands.

Með því að innleiða Atlantshafsleiðina um Ísland erum við um leið að hvetja hjólreiðamenn til að hjóla um Ísland. Það er ekki hægt að hugsa sér umhverfisvænni ferðamenn. Auk þess eru þeir víst sísvangir og þurfa oft að borða. Hjólandi ferðlangar taka sér einnig mun lengri tíma til að ferðast stuttar vegalengdir heldur en þeir sem fara á Yaris rúntinn um landið.

Áætlað er að leiðin verði formlega vígð árið 2016.
Skýrslan Hjólaleiðir á Íslandi er aðgengileg í pdf formi á heimasíðu Ferðamálastofu.
Cycling Iceland kortið er aðgengilegt í pdf formi á heimasíðunni www.cyclingiceland.is

Sesselja Traustadóttir

Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015