Flestir kannast nú orðið við Druslu­gönguna þar sem boðskapurinn er  sá að konur eiga ekki að þurfa að klæða sig með það í huga að minnka hættuna  á að verða fyrir  kynferðislegu ofbeldi eða jafnvel nauðgun.  Á ensku er  talað um „victim blaming“. Dómarar, lögreglumenn og blaðamenn hafa stundum látið að því liggja að kona sem var nauðgað eigi að einhverju leiti sök á því sjálf hvernig fór,  vegna „ögrandi klæðaburðar“ eða hegðunar og ábyrgðinni þannig varpað á þolandann. 

Víða eru fórnarlömb ásökuð.  Erlendis hefur hugtakið verið  þó nokkuð notað í tengslum við umfjöllun um árekstra þar sem ekið hefur verið á gangandi eða hjólandi vegfarendur. Vissulega og sem betur fer er sjaldan hægt að tengja  umferðarslys við ásetning, ólíkt í tilfelli nauðgunar. 

Ásökunin á fórnarlömbin  liggur oft í því hverngi fjallað er um  atvikin. Þegar ekið hefur verið á gangandi eða hjólandi vegfaranda sjást t.d. oft dæmi í umfjöllun fjölmiðla þar sem annað hvort er fjallað af tillitssemi eða alls ekki um bílstjórann en af ónærgætni um hinn slasaða. Oft er t.d. fullyrt eitthvað í þá veru að sá sem „varð fyrir bíl“ hafi birst skyndilega, hafi ekki gætt að sér og svo framvegis.  Sjaldnast er fjallað um þátt ökumanns, t.d.  hvort hraði hafi verið eðlilegur miðað við aðstæður, hvort hann hafi sýnt árvekni við aksturinn eða hvort farsími eða aðrir í bílnum hafi átt athygli bílstjórans. Ef hjólreiðamaður á í hlut beinist athyglin að því hvort  hún eða hann hafi notað reiðhjólahjálm, óháð því hvort höfuðið eða hjálmurinn hafi orðið fyrir höggi.

 

Afbrigðileg í umferðinni

Vissulega finnst undirrituðum að um­fjöllunin sé eitthvað að batna, og er það vel. En það er  tilhneiging í okkar samfélagi að líta  einhvern veginn öðruvísi á gangandi eða hjólandi vegfarendur og þegar árekstur á sér stað er iðulega fjallað um atburðinn út frá sjónarhorni bílstjórans. Svo inngróið er þetta sjónarhorn að það  hefur læðst inn í hugtaka­notkun umferðarlaga og  opinberan mál­flutning um flokkun vegfarenda. Þeir sem ferðast um gangandi, hjólandi, skokkandi, í hjólastól , með göngugrind og svo framvegis, já, allir sem ekki ferðast um á bíl, eru nefndir „óvarðir vegfarendur“.

Orðalagið „óvarinn vegfarandi“  segir nokkuð skýrt hvað sé talið almennt og eðlilegt, það er að ferðast um í stórri stál­grind eða álíka varnarbúnaði. Þeir eru eðlilegir en hinir afbrigðilegir.  Það er orðið eitthvað „hinsegin“ að ferðast um með þeim eina hætti sem þekktist alla tíð þar til fyrir hundrað árum.  Gangandi og hjólandi virðast með þessu orðalagi vera einhverskonar villingar í umferðinni (líkt og samkynhneigðir voru kallaðir kynvillingar meðan slíkt þótti afbrigðilegt).

 

Virkar samgöngur

Erlendis er í auknum mæli fjallað um „active transportation“, oft þýtt sem virkar samgöngur eða virkir samgöngumátar. Þessi hugtök eru notuð um samgöngur fólks sem ferðast fyrir eigin vöðvaafli. Þannig er verið að skilgreina þessa ferðamáta með jákvæðum hætti út frá því sem þeir eru en ekki út frá því sem þeir eru ekki. Einnig hafa verið notuð hugtök s.s. heilbrigðar samgöngur, vistvænar samgöngur, vöðvaknúnar samgöngur  og fleira. Einhverjir gætu rangtúlkað þessi hugtök en það er aðallega vegna þess að við höfum ekki vanist þeim ennþá.
Landssamtök hjólreiðamanna hafa bent á að ekki sé ákjósanlegt að löggjafinn noti hug­takið „óvarinn vegfarandi“ um þá sem stunda virka samgöngumáta. Það er heldur ekki eðlilegt að nota þessa orðræðu í opinberri um­fjöllun um tölfræði og þess háttar því þetta er á margan hátt gildishlaðið hugtak með neikvæða merkingu sem hefur áhrif á hvernig við hugsum um umferðaröryggi, skipulag og daglegar ferðir.
Auk þeirra sem stunda virkar samgöngur, knúnar eigin vöðvaafli, þá telst  fólk á bifhjólum og á hestbaki einnig sem „óvarðir vegfarendur“. Í tölfræði  leiðir það til ýmissa vandamála að flokka notendur bifhjóla og hesta með virkum samgöngumátum. Umferð bifhjóla og hestamanna er á margan hátt mjög frábrugðin, og að blanda þeim saman við virkar samgöngur með óljósum hætti getur leitt til misskilnings og rangtúlkana.

 

Óvarinn er óheppilegt hugtak

Með þessum obbolitla formála komum við loks að hvata þessara skrifa. Á heimasíðu Samgöngustofu var nýlega kynnt  dagskrá Umferðar- og samgönguþings sem haldið verður 19. febrúar næstkomandi.  Í kynningu segir: „fjallað verður um slys á hjólandi vegfarendum (óvörðum vegfarendum)”. Þar er þetta hugtak notað aftur. En eiginlega er það ekki notað samkvæmt venju, heldur virkaði þetta á mig líkt og sagt hefði verið: „fjallað verður um nauðganir kvenna (hið léttklædda kyn)”. Líklega var það ekki meiningin hjá þeim sem þetta skrifaði  og kannski er þetta allt eitt „Freudian slip“:  Eru mögulega undirliggjandi einhver ómeðvituð neikvæð viðhorf gagnvart gangandi og hjólandi sem birtast í vali  á þessu  orðfæri?

Þegar sjálf dagsskráin er skoðuð, er eftir­tektar­vert að ekki er minnst á hjólreiðar. Titillinn  er:  „Rannsókn (skýrsla) um banaslys og alvarleg slys í umferðinni með áherslu á óvarða vegfarendur“. Hvernig stendur á því að einhverjum, sem ætlaði að draga saman efni ráðstefnunnar, fannst knýjandi í þessu samhengi að bæta inn orðinu hjólandi með þessum skringilega hætti? Nú er ekki meiningin að gera þessi fáu orð á vefsíðu stofnunar­innar  að stórmáli. Höfundur vildi vel. Þetta  er bara nýlegt dæmi um hversu óheppilegt hugtakið er.

Morten Lange,
formaður Landssamtaka hjólreiðamanna
Reykjavík, febrúar 2015
Myndir: PG

Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015